Wednesday, November 18, 2009

Dagbók Ingvars Teitssonar frá Íran í október 2009.

Íranferð í október 2009

Við Helen ákváðum að fara með Jóhönnu Kristjónsdóttur (JK) til Íran í tvær vikur í október 2009. Ég hafði ekki tekið mér neitt sumarfrí sumarið 2009, bara tvo virka daga til að fara með hóp á Öskjuveginn.

Við flugum til Reykjavíkur að kvöldi 30. september. Þá var hæg norðanátt og við fengum mjög þægilegt flug. Við lentum í Reykjavík um kl. 20.50 og gistum á Flókagötu 1. Þóra dóttir okkar kom þangað og spjallaði við okkur um stund.

Fimmtudagur 1. október:
Við fórum á fætur kl. 03.50 og tókum flugrútuna frá Umferðarmiðstöðinni kl. 04.40. Við hittum JK og aðra úr hópnum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar stundvíslega kl. 05.30, skv. áætlun. Í hópnum voru alls 26 manns og þarna hitti ég, auk annarra, Höskuld Jónsson og Guðlaugu konu hans og Tryggva Ásmundsson og Öglu konu hans.

Við fórum með Flugleiðavél til London og lentum þar rétt fyrir kl. 12 að staðartíma. Flugið var mjög þægilegt en við urðum að kaupa samlokur um borð, ekkert slíkt er lengur ókeypis hjá Flugleiðum. Flugið með British Midland til Tehran í Íran átti að fara frá Heathrow kl. 19.00. Eftir nokkrar samningaviðræður tókst JK að fá starfsfólk British Midland til að leyfa okkur að tékka töskurnar inn kl. 14. Reyndar var mjög þægilegt að innritunin til Tehran var á 2. hæð á Terminal 1, því að við komum á 1. hæð á Terminal 1 frá Íslandi.

Um kl. 18.30 fórum við út í flugvélina. Þar var hálfgert skipulagsleysi við brottfararhliðið. Þarna var allmargt af Írönum – sumir þeirra voru í hjólastólum – og ruglingur og vandræði. Loks þegar allir voru sestir út í vél, kom í ljós að vísa þurfti einum farþega frá, því að vegabréfið hans var útrunnið! Þá þurfti að leita að tösku þessa farþega, sem hafði verið sett um borð. Sú leit tók eina klukkustund! Taskan fannst að lokum og við fórum í loftið upp úr kl. 20. Ég sat við hliðina á Höskuldi Jónssyni í þessu flugi og við gátum spjallað margt á leiðinni. Flugið til Tehran tók 5 klst. og 10 mín. Við flugum yfir Þýskaland, Tékkland, Norður-Ungverjaland, Rúmeníu og austur yfir nær endilangt Svartahafið. Loks flugum við inn yfir Norðaustur-Tyrkland og til Íran. Við lentum á flugvelli Imam Khomeini, um 35 km suðvestan Tehran, um kl. 04 að staðartíma.

Það gekk klakklaust að komast inn í gegnum vegabréfaskoðunina, en írönsku landamæraverðirnir voru ekkert að flýta sér. Þeir athuguðu vegabréf Íslendinganna mjög vandlega en spurðu engra spurninga. Þegar við komum í salinn þar sem töskurnar áttu að koma, birtust þær mjög fljótlega. Hér voru alls staðar greinargóðar upplýsingar á bæði persnesku og ensku. Pezhman Azizi, íranski leiðsögumaðurinn okkar, kom í salinn þar sem töskurnar birtust. Hann greiddi götu okkar í gegnum tollinn. Vörður við græna hliðið ætlaði að gegnumlýsa ferðatöskurnar okkar, en Pezhman sagði eitthvað við hann og þá hætti vörðurinn við að skoða töskurnar neitt. Pezhman er á fertugsaldri, rúmlega meðalmaður á hæð og snöggur í snúningum og hraustlegur. Hann talaði nær óaðfinnanlega ensku og var mjög vel að sér um alla hluti í Íran. Hann þreyttist aldrei á að segja okkur frá hinu og þessu varðandi Íran.

Utan við tollhliðið á flugvellinum skipti ég 100 bandarískum dollurum (USD) í íranska ríala (IRR) handa okkur Helen. Fyrir dollarana fékk ég IRR 980.000 eða svo. Var það mjög ásættanlegt. Við fórum síðan beint út í rútu frá írönsku ferðaskrifstofunni Arg-e Jadid. Nafn ferðaskrifstofunnar þýðir Nýi Kastalinn. Í rútunni hittum við bílstjórann okkar, Mohammed, sem var með okkur nær alla ferðina. Pezhman og Mohammed hafa líka verið með fyrri hópa JK í Íran. Síðan ókum við þessa 30 – 40 km frá Imam Khomeini flugvellinum norðaustur til Tehran. Er við komum inn í borgina, var dögun í austrinu. Var mjög fallegt að sjá keilulaga tindinn á Damavand, hæsta fjalli Írans (5.671 m) norðaustan við borgina í morgunroðanum. Við ókum framhjá gríðarstóru minnismerki um Imam Khomeini við suðvesturmörk Tehran. Þar eru m.a. fjórir turnar eða mínarettur.

Við náðum upp á hótelið okkar, Laleh International, eftir þægilega ferð frá flugvellinum. Laleh, sem þýðir lilja á persnesku, hét Hotel Intercontinental fyrir klerkabyltinguna í Íran árið 1979. Við komumst mjög fljótt upp á herbergin okkar, því að Pezhman eða ferðaskrifstofan hafði séð um að tékka okkur inn. Laleh hótelið er rétt norðan við miðja borg, við norðurjaðarinn á stórum garði: Park-e Laleh. Ýmislegt á hótelinu bar þess merki að vera ekki alveg nýtt. Þannig var viðhald á vissum hlutum á herberginu okkar ekki sem best. Herbergið var þó í það heila í góðu lagi.

Föstudagur 2. október:
Við fórum í háttinn rétt upp úr kl. 06. Ég svaf eins og steinn þangað til vekjaraklukkan mín vakti mig kl. 11. Þá drifum við okkur á fætur, og JK og Pezhman fóru með okkur á veitingastað í Tehran í hádegismat. Þarna gengum við niður í kjallara og fengum ágæta máltíð. Ég notaði þau orð í persnesku sem ég kunni. Var auðséð að heimamenn kunnu vel að meta það. Að hádegisverði loknum ókum við norður og upp á við í gegnum Norður-Tehran til sumarhalla keisarafjölskyldunnar í Sa´d Abad. Þessi staður er afgirt svæði, 104 hektarar, rétt norðan borgarmarka Tehran. Á svæðinu eru mörg hús. Upphaflega var byggt upp hér af forverum Pahlavi ættarinnar, en Shah Reza og sonur hans, Reza Pahlavi, bjuggu hér meira og minna frá 1921-1979.

Í Sa’d Abad skoðuðum við fyrst Hvítu Höllina, White Palace, sem var byggð 1931-36. Hún er á tveimur hæðum og er mjög hátt til lofts á báðum. Íburðurinn hér er ótrúlegur. Meðal annars eru hér gríðarstór persnesk teppi í nær hverju herbergi. Hafa þessi teppi greinilega kostað of fjár, hvert fyrir sig. Kristals-ljósakrónur úr tékkneskum kristal voru hvarvetna, augljóslega mjög verðmætar. Í einu svefnherberginu í höllinni var tígrisdýrshaus með áföstu skinni á gólfinu. Víða voru dýr málverk og augljóst að ekkert hafði verið til sparað. Manni datt í hug að sá sem hér réði ríkjum hefði litið á sig nánast sem son sólarinnar. Einnig hefði hann etv. hugsað sem svo: „Ríkið, það er ég“ að hætti Lúðvíks 14. Frakkakonungs.

Eftir að hafa skoðað Hvítu Höllina, tókum við rútu upp í Grænu Höllina sem er efst á svæðinu Sa´d Abad. Sú höll er miklu minni en Hvíta Höllin. Hér var um tíma bústaður Shah Reza en hann stjórnaði Íran frá 1925-41. Höllin er nefnd Græna Höllin vegna þess að hún er byggð úr grænum marmara. Hér var um skeið gististaður helstu fyrirmenna sem komu í einkaheimsókn til Íranskeisaranna. Þá gistu þeir á neðri hæðinni. Meðal annars gistu þekktir menn eins og John F. Kennedy og Jimmy Carter hér. Í herbergjum Grænu Hallarinnar mátti sjá fjölmargar gersemar, s.s. dýrindis persnesk teppi á gólfum. Til marks um það fara allir gestir í sérstakar skóhlífar úr sterkum pappa áður en þeim er hleypt inn í höllina. Í einu herberginu voru veggir og loft alsett örsmáum speglum sem glitraði á. Í einu herberginu var mynd af Shah Reza í hermannsskrúða en hann var liðsforingi (brigadier general) í persneska hernum áður en hann náði völdum í Íran með stuðningi Breta árið 1925.

Frá Sa’d Abad ókum við til bústaðar Imam Khomeini. Ég hafði heyrt að bústaðurinn væri mjög einfaldur og gerði ráð fyrir að hann væri í Suður-Tehran þar sem efnaminna fólk býr. Svo var þó ekki. Bústaðurinn er efst uppi við fjallsrætur í Norður-Tehran, nyrst í borginni þar sem þeir efnuðustu búa. Við gengum alllanga götu frá bílastæði að bústað Khomeinis. Þar voru að sjálfsögðu verðir á hverju strái og við innganginn var sérstakt hlið fyrir konur og annað fyrir karla. Bústaðurinn sjálfur virtist vera eitt lítið herbergi og sáum við inn í það í gegnum stóra rúðu. Þar var langt persneskt teppi á gólfi, greinilega ekki af ódýrara taginu. Teppið var allt of langt fyrir herbergið og megnið af því var upprúllað úti við einn vegginn. Fram úr herbergi eða húsnæði Khomeini var pallur sem trúarleiðtoginn mun hafa gengið eftir, yfir í bæna- og samkomusal þar rétt hjá. Eftir þessum palli gat hann gengið á sléttu yfir í bænasalinn. Okkur var sagt að hann hefði verið svo heilsutæpur undir það síðasta að hann hafi ekki getað gengið upp tröppur. Bæna- og samkomusalurinn var afar einfaldur í sniðum. Þarna inni var þó kvikmyndatökuvél. Khomeini mun hafa flutt í þetta húsnæði upp úr því að hann sneri heim til Íran frá Frakklandi árið 1979. Hann mun hafa átt þarna heima þangað til hann andaðist árið 1989, 86 ára að aldri.

Frá bústað Khomeini ókum við niður á Hótel Laleh og borðuðum kvöldverð á efstu hæð hótelsins. Úr salnum var m.a. fagurt útsýni yfir Vestur-Tehran. Þar mátti sjá, auk annars, mikinn turn, Milad Tower, 453 m á hæð. Ofarlega í turninum virðist vera veitingastaður sem snýst.

Laugardagur 3. október:
Við fórum ekki mjög snemma á fætur, enda þreytt eftir ferðalagið frá Íslandi. Eftir morgunverð gengum við á Teppasafnið í Laleh Park, stutt frá hótelinu. Þar mátti sjá mikið úrval af írönskum teppum frá ýmsum tímum, bæði frá Qom, Esfahan og fleiri borgum. Einnig voru þarna hirðingjateppi, svo sem Bakhtiari. Þarna mátti ekki taka myndir með flassi en ég tók töluvert af myndum af skrautlegum teppum. Þarna fengum við okur tesopa og kostaði bollinn hálfan dollar eða um 70 krónur. Það þætti ekki dýrt á Íslandi.

Frá Teppasafninu gengum við á Nútímalistasafnið í Tehran. Þetta safn er í Laleh Park, stutt frá Teppasafninu. Safnið var byggt milli 1970 og 1980 og mun Farah Diba, keisaraynja, hafa verið ein aðalhvatamanneskjan á bak við byggingu safnsins. Hún mun hafa keypt mikið af vestrænum listaverkum, en nú hafa þau öll verið fjarlægð. Í staðinn eru komin íslömsk listaverk: mikið af skrautskrift með arabísku letri, s.s. setningar úr Kóraninum. Innan um þessa skrautskrift voru þó snotur listaverk, en ekki mörg, að mínu mati. Mér virtist næstum eins og að írönskum listamönnum hefði verið sagt að búa til listaverk sem hæfðu íslamska lýðveldinu í Íran. Það mundi samsvara því að þýskum listamönnum í „þriðja ríkinu“ hefði sagt að skrifa. „Sieg Heil“ með gotnesku letri og kalla það list.

Eftir að hafa skoðað safnið fórum við á kaffistofu í Nútímalistasafninu. Þar kostaði kaffibollinn sem svaraði USD 2,50 eða fimm sinnum meira en á Teppasafninu.

Um hádegisbilið ókum við niður í miðborg Tehran og borðuðum ríkulegan hádegisverð á hóteli rétt hjá Imam Khomeini torginu. Á veitingastaðnum var mjög fjölþjóðlegt andrúmsloft, en annars sáum við ekki marga útlendinga í Tehran.

Eftir hádegismatinn ókum við áleiðis út á Mehrabad International Airport við vesturjaðar Tehran. Á leiðinni ókum við framhjá húsi því sem hýsti bandaríska sendiráðið í Íran fram að byltingunni 1979. Nú kallast húsið hins vegar „bandaríska njósnahreiðrið.“ Á múrveggjunum utan um garð sendiráðsins var fullt af áletrunum, bæði á persnesku og ensku. Þar stóð meðal annars: „Við munum láta Ameríku horfast í augu við mikinn ósigur.“ Rétt hjá flugvellinum ókum við fram hjá Azadi Tower eða Sigurturninum sem er 50 metra hár og stendur á stóru hringtorgi í mikilli umferðaræð vestur úr borginni, norðan flugvallarins. Turninn minnir svolítið á Sigurbogann í París. Azadi Tower var byggður 1971 í tilefni 2500 ára afmælis Persaveldis og hét þá „Minnismerki Konunganna.“ Eftir byltinguna var nafninu breytt í „Sigurturninn.“

Við komum út á flugvöll á tilsettum tíma og fórum með þotu frá Iran Air, ríkisflugfélaginu, til Shiraz í Suður-Íran. Flugið tók um 1 klst. og 20 mínútur og var hið þægilegasta, nær engin ókyrrð í lofti. Þennan dag var reyndar heiðríkja í Tehran og Shiraz, eins og alla dagana sem við dvöldum í Íran. Borgarstæðið í Shiraz liggur um 1500 m y. sjó og í borginni búa um 1,7 milljónir. Þegar við komum til Shiraz, ókum við beint á Pars hótelið við breiðgötuna Zand, um 1,5 km vestan við markaðinn í miðborg Shiraz. Við borðuðum kvöldverð á hótelinu og létum fara vel um okkur. Herbergið sem við Helen fengum, var mjög rúmgott og snyrtilegt og með ágætri loftkælingu.

Sunnudagur 4. október:
Morguninn var bjartur og fagur eins og allir hinir morgnarnir í Íran. Glugginn á hótelherberginu mínu sneri á móti norðri svo að fjöllin norðan Shiraz blöstu við í morgunsólinni. Ég skimaði eftir Khoskh ánni sem samkvæmt kortinu átti að vera rétt norðan hótelsins. Þar sást þó engin á og ég skildi það ekki í fyrstu. Að lokum rann upp fyrir mér ljós: Árfarvegurinn var gjörsamlega þurr.

Við ókum niður í miðborg Shiraz að morgninum og byrjuðum á að skoða Madraseh-ye Khan, trúfræðiskóla Múslima í Shiraz. Þarna fengum við að ganga um og taka myndir. Pezhman sagði okkur heilmikið frá sögu Múslima, í Íran og annars staðar. Madraseh-ye Khan er að stofni til frá 1615. Athyglisvert var að koma inn í áttstrent móttökuherbergi eða anddyri rétt innan við aðaldyr skólans. Svona áttstrend anddyri munu víða hafa verið í höllum fyrirmenna í Íran áður fyrr. Í garði skólans voru m.a. stórir döðlupálmar. Þar sátu nokkrir klerkar í skugga trjánna, enda var mjög heitt í Shiraz um hádegið þennan dag, vel yfir +30°C. Pezhman sagði okkur m.a. frá því að þeir klerkar í Íran sem bera svartan vefjarhött eru afkomendur Múhmeðs spámanns og kallast þá sayyid. Þeir klerkar sem bera hvítan vefjarhött geta hins vegar ekki státað af svo göfugum uppruna.

Þessu næst fórum við inn í Masjed-e Nasir-ol Molk eða Nasir-ol Molk moskuna, rétt hjá trúfræðiskólanum. Þarna sáum við m.a. vatnsból moskunnar og þar var afar djúpt niður í vatnsborðið, etv. 20 - 30 metrar. Áður voru kýr látnar draga vatnsfötur upp úr þessu vatnsbóli og voru þær teymdar niður hallandi gang í stefnu frá vatnsbólinu þegar þær lyftu vatnsfötunum. Vatnsborðið í brunninum sagði án efa til um grunnvatnsstöðuna í miðborg Shriaz og blöskraði mér hve lág hún var. Þarna hitti ég ungan Írana sem spurði mig m.a. hvort ég kannaðist við einhver persnesk skáld. Ég nefndi Hafez og dró upp úr bakpoka mínum kvæðabók Hafezar sem ég hafði keypt fyrir ferðina til Íran. Þá varð Íraninn ekki lítið undrandi og lét í ljós aðdáun sína á að ég skyldi vera með kvæði þessa þjóðskálds Írana meðferðis. Í moskunni fórum við m.a. inn í bænasalinn sem var lagður dýrindis persneskum teppum. Í salnum voru líka afar fallegir steindir gluggar sem við náðum myndum af. Einnig var víða fagurt veggskraut í moskunni. Pezhman sýndi okkur auk annars gryfjuna fremst í bænasalnum en hún kallast „mihrab“. Þar stendur sá imam sem leiðir bænirnar og söfnuðurinn snýr sér til hans. Allur söfnuðurinn horfir í átt til Mekka í Saudi-Arabíu. Konur og karlar mega biðjast fyrir í sama salnum, en þá verða konurnar að vera fyrir aftan karlana eða að minnsta kosti til hliðar við þá. Undir engum kringumstæðum mega konur vera beint framan við karla þegar beðist er fyrir í moskunum.

Frá Nasir-ol Molk moskunni fórum við að skoða Narenjehstan-hefðarsetrið nærri miðborginni í Shiraz. Setrið var byggt 1879-86 og þótti mér garðurinn framan við aðalhúsið, hinn svonefndi Appelsínugarður eða Narenjehstan, vera einstaklega fallegur. Garðurinn var þó fremur lítill. Inni í húsinu var heilmikið skraut, m.a. smáir speglar og mosaic-myndir. Frá Narenjehstan fórum við og snæddum hádegisverð á veitingastað og fórum svo heim á hótel og hvíldum okkur um stund.

Síðdegis þ. 4. október fórum við að skoða grafhýsi skáldsins Hafezar. Hafez var fæddur í Shiraz 1315 og dó um 1390. Hann mun hafa alið nær allan aldur sinn í borginni. Grafhýsi hans er í fallegum garði norðan við Khoskh-ána í Shiraz. Þarna var margt Írana enda hafa þeir afar mikið dálæti á Hafez. Sagt er að á hverju meðal heimili í Íran séu a.m.k. tvær bækur: Kóraninn og kvæðabók Hafezar: Divan-e Hafez. Sagt er að Íranir geti alltaf flett upp í kvæðum Hafezar lausnum á hverjum þeim vanda sem þeir kunna að lenda í. Ég hafði lesið tæplega 200 kvæði eftir Hafez í enskri þýðingu fyrir ferðina til Íran. Hafez var Súfisti og mörg kvæða hans fjalla um ástir, víndrykkju og næturgala. Auk þess er þarna mikið af heilræðum og lífsspeki. Ég var í aðra röndina hissa á að klerkastjórnin í Íran skyldi ekki hafa bannfært Hafez fyrir dálæti hans á víndrykkju. Allt áfengi og áfengisneysla var gert útlægt úr Íran eftir byltinguna 1979. Vínrækt var hins vegar mikil í Shiraz og vínþrúgur þaðan eru nú ræktaðar víða um heim, m.a. í Ástralíu. Við höfðum verið vöruð við að reyna að koma með neitt áfengi með okkur til Íran. Ekkert áfengi er þar neins staðar til sölu opinberlega. Jafnvel á dýrustu hótelunum sem við dvöldum á var ekki hægt að fá svo mikið sem glas af hvítvíni eða áfengum bjór með kvöldmatnum. Hins vegar var þar hægt að fá evrópskan „bjór“ sem var þó vandlega merktur sem 0,0% áfengi!


Pezhman leiðsögumaður sagði okkur frá skáldinu Hafez við grafhýsið. Eftir það las ég eitt af kvæðum Hafezar í enskri þýðingu fyrir hópinn okkar. Ég valdi þá eitt það kvæði skáldsins sem er hvað auðveldast að skilja. Í kvæðum sínum vitnar Hafez víða í hetjur úr Kóraninum og úr persneskri þjóðtrú. Slíkt krefst auðvitað orðskýringa svo að ég valdi kvæði þar sem ekkert slíkt kemur fyrir.

Frá grafhýsi Hafezar ókum við á helsta basarinn í Shiraz, Bazar-e Vakil sem þýðir Basar Þjóðhöfðingjans. Þar gengum við um og skoðuðum mottur og teppi og skrautmálaða trékassa o.fl. Mér kom á óvart hve mikið var af gömlum teppum og mottum til sölu þarna. Margar þessar mottur voru ekki glæsilegar. Þeir sem voru að selja á basarnum voru hinir vingjarnlegustu, ekki síst þegar þeir heyrðu að ég reyndi, af takmarkaðri getu, að tala persnesku. Einn íranskur piltur sagði mér að sig langaði til Oslóar að læra. Þessi piltur var, ásamt föður sínum, að selja teppi, en mest voru þeir með notaðar hirðingja-mottur og hirðingjateppi sem mér leist ekkert á.

Við Helen fengum okkur tesopa á basarnum og skömmu seinna hittum við Pezhman og fórum í kvöldverð á veitingahúsi skammt frá basarnum. Þar sem annars staðar í Íran var maturinn mjög góður og þarna var hljómsveit sem spilaði fyrir gestina. Með hljómsveitinni var roskinn söngvari. Augljóslega var hann að syngja gamla slagara, eitthvað um „azizam“ sem þýðir: „elskan.“ Eldri íranskar konur sem voru á veitingahúsinu féllu alveg í stafi yfir söng mannsins og klöppuðu honum óspart lof í lófa. Þarna á veitingahúsinu kom til mín ungt íranskt par. Þau töluðu sæmilega ensku, einkum stúlkan. Þegar hún heyrði að ég væri læknir, vildi hún endilega fá að vita af hverju hún væri með verki í herðunum. Ég sagði henni að hún væri trúlega með vöðvabólgu, enda var ljóst að hún var meira og minna upptrekkt. Þetta íranska par var dæmigert fyrir yngri Írani. Hvar sem við komum í Íran var fólk undantekningarlaust afar vingjarnlegt við okkur Íslendingana og vildi gjarnan masa við okkur. Að máltíðinni lokinni fórum við sem leið lá heim á Pars hótelið.

Mánudagur 5. október:
Við fórum snemma morguns frá hótelinu til Persepolis og Necropolis. Þessir merkisstaðir hins forna Persaveldis eru um einnar klukkustundar akstur norðaustan við Shiraz. Þangað fór með okkur leiðsögukona frá Shiraz, Lótus að nafni. Þessi stúlka var rúmlega tvítug og talaði fremur lélega ensku. Hún kunni sögu staðarins allvel en stundum sló auðsjáanlega út í fyrir henni. Þannig sagði hún okkur m.a. að Elamítar í Súsa hefðu skrifað lögbókina sem fannst í Súsa og er nú í Louvre-safninu í París. Þetta er auðvitað alrangt, lögbókin er frá tíma Hammurabi, Babýloníukonungs, en Elamítar tóku lögbókina, þ.e. svarta steininn, sem lögbókin er letruð á, herfangi í Babýlon og fluttu til Súsa.

Í Persepolis komum við inn á stórt bílastæði sem var næstum autt. Pezhman sagði okkur að vegna uppþotanna eftir forsetakosningarnar í júní 2009 hefðu um 67% hópanna, sem ætluðu að koma til Íran haustið 2009, afboðað komu sína. Í nágrenni bílastæðisins mátti sjá leifar hinnar miklu tjaldborgar sem Íranskeisari lét byggja hér árið 1971 til að minnast 2500 ára afmælis Persaveldis. Þessi veisla mun hafa orðið óhemju dýr og þótt þar kæmi fjöldi fyrirmenna frá öðrum löndum, þá voru þar tiltölulega fáir Íranir. Er sagt að þessi eyðslusemi hafi átt þátt í að einangra keisarann frá sinni eigin þjóð. Það stuðlaði aftur að falli hans af valdastóli einum átta árum eftir veisluna.

Við dvöldum í Persepolis í um tvær klst. Fyrst fór „Lótus“ með okkur um svæðið og sýndi okkur rústir helstu hallanna. Svæði rústanna er um 200 m x 300 m að stærð, á stórri sléttu, suðvestan undir fjallshlíð. Persepolis var byggð upp á tíma Daríusar Persakonungs, um og eftir 518 f. Krist. Þarna er stutt í byggingarefni því að súlurnar og steinarnir virðast hafa verið sótt í sótt í fjallshlíðina rétt ofan við borgarstæðið. Á einum stað sýndi „Lótus“ okkur hvernig byggingarnar höfðu verið að verulegu leyti á kafi í sandi í mörg hundruð ár þangað til uppgröftur hófst um 1930.

Við gengum upp þrep vestan á borgarsvæðinu, upp á lárétt svæði þar sem rústir hallanna eru. Voru þrep þessi furðu lág. Okkur skildist að þrepin hefðu verið svona lág til að fyrirmenn í síðum kuflum hefðu getað gengið hindrunarlaust upp þau. Fyrir ofan þrepin er hlið sem nefnist „Hlið Allra Þjóða“ eða „Hlið Xerxesar.“ Í hliðinu standa enn fjórar steinsúlur og höggmyndir. Hér voru auk þess krotuð í hliðið nöfn ýmissa fyrirmenna sem höfðu heimsótt Persepolis fyrr á tímum. Var það sannkallað veggjakrot. Meðal annars hafði landkönnuðurinn Henry M. Stanley (1841-1904) krotað nafn sitt á vegg sunnan við hliðið. Þá hafði Þjóðverjinn Graf von Schulenburg höggvið nafn sitt mjög snyrtilega í norðurvegg hliðsins árið 1931, en þá var hann sendifulltrúi Þjóðverja í Íran. Þessi Schulenburg varð síðar sendiherra Þjóðverja í Moskvu og var þar þegar stríð Þjóðverja og Rússa skall á 1941.

Merkilegustu hallarrústirnar sýndust mér vera rústir Apadana hallarinnar sem Daríus mikli hóf að byggja og sonur hans Xerxes I lauk við. Upp í höllina að austan lágu þrep, bæði frá norðri og frá suðri. Við norðurþrepin voru mjög glæsilegar lágmyndir af hermönnum úr her Xerxesar. Við suðurþrepin eru merkilegustu myndir allrar Persepolis. Þar má sjá lágmyndir af hópum frá hinum 23 þjóðum sem tilheyrðu Persaveldi á dögum Xerxesar. Fulltrúar þjóðanna eru að koma með gjafir til konungsins á mesta hátíðisdegi ársins, No Ruz, sem er á jafndægrum á vori, um 21. mars. Sá dagur er enn mesti hátíðisdagur Írana. Þessar lágmyndir eru nú undir sólskyggni til að vernda þær. Lágmyndirnar voru um aldir grafnar í sand eyðimerkurinnar og hafa því varðveist mjög vel. Greinilega má þekkja frá hvaða landsvæði hver hinna 23ja hópa er. Þarna er hópur frá Ethiopíu, hópur frá Bactriu (í Afghanistan nútímans) og hópur frá Indlandi, auk annarra.

Frá Apadana höllinni fórum við að rústum fleiri halla. Meðal annars fórum við að fjárhirslunni. Þar var afar merkileg mynd af Xerxes konungi Persa sitjandi í hásæti sínu. Fyrir aftan konunginn stendur ríkisarfinn og fleiri menn. Fyrir framan konunginn eru tvö reykelsisker og handan við þau gestir sem eru að heimsækja konunginn og votta honum virðingu sína. Frummynd þessarar lágmyndar er á Þjóðminjasafninu í Tehran. Einnig skoðuðum við höll hinna 100 súlna. Þær súlur voru allar brotnar, að heita mátti.

Ýmsar myndanna á veggjum Persepolis voru endurteknar hér og þar um borgarsvæðið. Meðal þessara mynda var mynd af ljóni (ímynd sólarinnar) að ráðast á naut (ímynd jarðarinnar) á jafndægrum á vori (No Ruz). Okkur skildist að þessi mynd hefði átt að tákna sigur sumarsins yfir vetrinum. Önnur mynd, sem var hér og þar á súlnahliðunum í Persepolis, sýndi mann sem er að reka hníf í kvið dýrs sem virðist vera hestur. Jafnframt grípur maðurinn í höfuð dýrsins.

Eftir tedrykkju í Persepolis gekk ég upp í fjallshlíðina ofan við borgarstæðið þar sem grafhýsi Artaxerxes II og Artaxerxes III eru höggvin inn í fjallshlíðina með fögru útsýni yfir Persepolis. Þar gat meðal annars að líta merki Zoroastriana sem höggvið var inn í
vegginn yfir grafhýsinu. Trú Zoroastriana var hin opinbera trú í Persaveldi hinu forna. Við sáum seinna musteri Zoroastriana í borginni Yazd þar sem lítill söfnuður fólks heldur enn tryggð við þessi fornu trúarbrögð.

Frá Persepolis ókum við stutta leið, etv. 20 km, til Necropolis þar sem grafir fjögurra Persakonunga eru höggnar inn í fjallshlíð. Grafhýsin eru uppi í miðjum klettavegg og ókleift upp að þeim. Minnti þetta mig á grafhýsin í Petra í Jórdaníu. Þessar grafir eru taldar tilheyra konungunum Darius II, Artaxerxes I, Darius I og Xerxes I, talið frá vinstri til hægri handar. Neðan við grafhýsin eru lágmyndir frá sassanian tímabilinu, höggnar í klettavegginn. Athyglisvert er að öll grafhýsin í klettaveggnum mynda kross, hvert fyrir sig. Þannig má sjá að krossinn hefur verið mikilvægt tákn hjá Zoroastrian-trúarmönnum, um 400-500 árum fyrir Krist.

Framan við grafhýsin í klettaveggnum í Persepolis er bygging úr hlöðnum steinum, Kaba Zartosht. Ekki er vitað fyrir víst hvaða hlutverki þessi bygging gegndi. Ef til vill var þetta fjárhirsla eða sólarúr eða eldmusteri.

Eftir heimsóknina í Necropolis borðuðum við prýðisgóðan hádegisverð á veitingastað milli Persepolis og Necropolis. Þarna er mikil akuryrkja sem er greinilega háð áveitum. Meðal annars voru þarna stórir maísakrar. Einnig var þarna töluvert af sauðfé. Þarna í fjöllunum eru hirðingjar sem reika um með hjarðir sínar og búa í tjöldum.

Eftir hádegismatinn ókum við til baka til Shiraz, um 70 km leið. Á leiðinni sagði „Lótus“ okkur frá stöðu kvenna í Íran. Meðal annars ræddi hún um slæðuna sem allar fullorðnar konur verða að ganga með. Margt af því sem „Lótus“ sagði bar þess skýr merki að vera hin opinbera stefna klerkastjórnarinnar. „Lótus“ sagði okkur m.a. frá því hvernig hjónaband er undirbúið í Íran. Saga hennar var á þá leið að ef móðir pilts, sem er kominn um tvítugt, sér myndarlega stúlku á strætisvagnabiðstöð, þá biður móðirin stúlkuna að láta sig hafa símanúmerið sitt. Móðir piltsins fer síðan í heimsókn inn á heimili stúlkunnar til að átta sig á aðstæðum þar. Móðirin vonast til að á gólfinu í stofu foreldra stúlkunnar sé vandað persneskt teppi. Þá sagði „Lótus“ að móðirin lyfti gjarnan upp horni á teppinu til að ganga úr skugga um að engin óhreinindi séu þar undir! Ef þetta virðist allt vera í lagi, fer að verða mögulegt að kynna piltinn og stúlkuna hvort fyrir öðru – en að sjálfsögðu einungis í viðurvist fullorðinna siðgæðisvarða! Óhætt er að fullyrða að frásagnir „Lótusar“ féllu í grýttan jarðveg hjá íslensku konunum og hún fékk nokkrar hvassyrtar spurningar eftir að hún hafði látið móðan mása um ágæti þess að ganga alltaf með slæðu.

Á norðurmörkum Shiraz stoppuðum við hjá Kóran-hliðinu. Þetta hlið er í fjallaskarði rétt norðan Shiraz og sést héðan vel yfir borgina. Hér var sagt að ferðalangar sem komu að norðan hefðu hrópað: „Allah-hu-akhbar“ sem þýðir: „Guð er mestur allra.“ Frá Kóran-hliðinu ókum við heim á hótel og gerðum lítið meira þann daginn.

Þriðjudagur 6. október:
Við ókum að morgni að grafhýsi skáldsins Sa´di í norðurhluta Shiraz. Grafhýsið stendur í afar vel hirtum garði. Mér þótti sá garður vera fallegasti garðurinn sem við sáum í Íran. Hér voru fögur blómabeð og tré af mörgum tegundum. Einnig var þarna tjörn með fiskum og var opið úr tjörninni í neðanjarðar-vatnsveitukerfi Shiraz borgar. Steinkista skáldsins Sa’di er alsett áletrunum og á veggjum inni í grafhýsinu eru nokkur af kvæðum skáldsins. Sa’di er meðal annars frægur fyrir kvæðið um Golestan eða Rósagarðinn.

Frá grafhýsi Sa’di ókum við að Eram-garðinum norðvestan til í Shiraz, stutt frá Háskólanum í Shiraz. Við komum þar rétt eftir kl. 11.30 og var þá garðurinn lokaður. Þetta virtist koma Pezhman leiðsögumanninum okkar í opna skjöldu. Reyndar stóð skýrum stöfum á skilti við hliðið að garðurinn væri opinn til kl. 11.30 og að hann opnaði svo aftur eftir hádegið. Eftir nokkurt þref við starfslið Eram garðsins varð Pezhman frá að hverfa með okkur. Var þá ekið niður í miðborg Shiraz og að kastalanum Arg-e Karim Khan. Kastalinn er með geysiþykkum útveggjum úr leirsteini og er leirinn límdur saman með hálmi, rétt eins og í Suðaustur-Jemen. Á hverju hinna fjögurra horna kastalans er stóreflis turn. Turninn í suðausturhorninu hallast verulega. Er sú aflögun hið besta myndefni.

Innan veggja kastala Karim Khan er stór garður með ávaxtatrjám. Þar er einnig ílöng tjörn eins og í flestum fínustu görðunum í Íran. Í kastalanum skoðuðum við tvö söfn. Á öðru safninu voru ljósmyndir frá 20. öldinni frá Shiraz. Sumar elstu myndirnar sýndu þekktustu breiðgötu borgarinnar, Karim Khan-e Zand Boulevard, á árunum upp úr 1900. Þar voru þá mjög fá tré og ólíkt umhverfi því sem er við götuna í dag. Einnig var þarna mjög athyglisverð mynd af konum í Íran árið 1939, en þá hafði Reza Shah bannað konum að nota slæðuna. Konurnar á þessari mynd voru því slæðulausar, gagnstætt því sam var á bæði eldri og yngri myndum frá Íran.

Eftir hádegismat þ. 6. október var frjáls tími í Shiraz. Þá gengum við Helen niður Zand breiðgötuna frá Pars hótelinu og alla leið niður á Bazar-e Vakil, um 1,5 km leið. Við spjölluðum við Írani hér og þar á leiðinni. Hér, eins og alls staðar þar sem við komum í Íran, var fólkið afar vingjarnlegt og til með að spjalla við okkur. Á basarnum keyptum við auk annars trékassa með handmáluðum litmyndum. Svona kassar eru seldir hvarvetna í minjagripaverslunum í Íran. Einnig keyptum við blússu á Helen og skýluklút. Hér kynntist ég í fyrsta sinn prútt-verslun af eigin raun. Okkur hafði verið ráðlagt að bjóða helmingi lægra verð en það sem sett var upp. Greinilega tóku verslunarmennirnir þessu misjafnlega, en oft var hægt að prútta verðinu niður um etv. 10-20%.

Á markaðinum skoðaði ég gullfallegar mottur frá Qashqa’i hirðingjunum sem búa í fjöllunum í nágrenni Shiraz. Ég keypti þó enga mottu í þetta skiptið. Eftir að hafa verslað á basarnum, gengum við Helen upp á Pars hótelið aftur.

Miðvikudagur 7. október:
Við yfirgáfum Shiraz snemma morguns og ókum norðaustur á bóginn til borgarinnar Yazd, sem segja má að sé í írönsku eyðimörkinni, nærri miðju landi. Á leiðinni stoppuðum við í Pasargade, um 100 km norðaustan Shiraz. Hér stendur grafhýsi Cyrusar mikla, eitt og yfirgefið á gróðurlítilli sléttu. Cyrus hinn mikli var konungur Persa á tímabilinu 559-530 f. Krist. Um 1-2 km frá grafhýsinu eru rústir af einkahöll Cyrusar og stutt þaðan eru rústir af áheyrnarhöll hans. Af þeirri höll stendur ein súla, en hinar eru hrundar að mestu.

Frá Pasargade ókum við áfram norðaustur í gegnum Zagros fjöllin. Þar er víða stunduð akuryrkja, og sáum við m.a. maísakra og aldingarða út um bílgluggann. Einnig voru þarna víða hjarðir af sauðfé við veginn. Stutt frá þorpinu Feyz Abad stoppuðum við og fengum okkur hádegisverð í skugga trjáa á bóndabýli. Pezhman, Mohammed bílstjóri og aðstoðarmaður þeirra sáu um hádegisverðinn. Þessi hádegisverður var mjög góður og ekki eins yfirþyrmandi stór og oft var þegar við fórum á veitingastaði í Íran í hádeginu. Á þessu bóndabýli var stunduð hveitirækt og einnig vínberja- og fíkjurækt. Einnig voru þarna ávaxtatré með ferskjum og granateplum.

Frá Feyz Abad lá leið okkar yfir eyðimörk norðaustur til borgarinnar Yazd. Hér vorum við sem næst í miðju landi og í regnskjóli af strandfjöllum til allra hliða. Svæðið minnti mig svolítið á Ódáðahraun að þessu leyti, enda var hér auðsjáanlega mjög þurrt og gróðurlítið. Hér voru þó þorp á stangli og stutt frá þorpinu Abarkuh sáum við ísturn. Þetta var leirbygging, fleiri mannhæða há, líkust býkúpu í laginu. Þarna inni var ís geymdur áður fyrr, frá vetri og fram á sumar. Ísinn var búinn til að vetri til með því að láta áveituvatn frjósa í næturkuldanum í grunnum tjörnum. Ísnum var síðan handmokað úr tjörnunum og niður í djúpa gryfju í ísturninum. Þegar komið var lag af ís í turninn, var hálmi mokað ofan á ísinn til að ísinn frysi ekki bara saman í stóran stump. Svo var haldið áfram, lag fyrir lag, að bæta í turninn. Ísinn var síðan notaður til að kæla matvæli yfir sumarið.

Nokkru norðaustan Abarkuh sáum við 4.500 ára gamalt Cyprus-tré. Við þetta tré mun hafa verið eldmusteri Zoroastrian-manna fyrr á öldum. Eyðimörkin sem við ókum yfir þennan dag, milli Abarkuh og þorpsins Deh Shir, á leiðinni til Yazd, var ekki algjör auðn. Víðast hvar var smávægilegur gróður og hvergi sáum við sandöldur. Stutt suðvestan Yazd fórum við yfir fjallaskarð og þar gnæfðu háir og fagrir tindar á báðar hendur. Hæstu tindarnir þarna voru rúmlega 4.000 m á hæð. Þegar halla tók niður að Yazd, stoppuðum við til að taka myndir. Þarna var sérkennilegur tindur rétt norðaustan við veginn, kallaður Arnarfjall, því að toppur fjallsins minnir á gogg á erni. Þarna risu hrikalegir tindar og veggbrött fjöll rétt suðvestan við veginn.

Stutt suðvestan Yazd stoppuðum við hjá útfararstað Zoroastriana, við þorpið Taft. Þarna var m.a. „turn þagnarinnar.“ Þetta var mikið grjótvirki með hringlaga fleti efst, um 40 m í þvermál. Umhverfis þennan flöt var lágur múrveggur. Innst í þessu hringlaga svæði var kringlótt gryfja, um 8 m í þvermál. Uppi á þessum turni voru naktir líkamar látinna Zoroastriana bornir út fyrir hrægamma. Í gryfjunni í miðjunni voru líkamar barna eða kvenna látnir liggja. Stutt frá turni þagnarinnar voru nokkrir leirkofar sem tilheyrðu trúariðkunum Zoroastriana. Þessi turn þagnarinnar mun síðast hafa verið notaður um eða upp úr 1960.

Þegar við komum til Yazd, ókum við beint á Hotel Moshir-ol Mamalek, sem var hið besta hótel en 2-3 km frá gömlu miðborginni. Yazd er sögð ákaflega gömul borg. Borgarstæðið er um 1.200 m y. sjó og þar búa um 530 þúsund manns. Gamla miðborgin er sérstök að því leyti að húsin eru nær alfarið úr leir-múrsteinum. Þessir múrsteinar eru límdir saman með hálmi og þola því illa stórrigningar. Vatnsveitan til Yazd byggir á neðanjarðar-ræsum eða qanat-kerfi. Pezhman sagði að í gömlu húsunum í miðborg Yazd væru engar vatnslagnir, en gaslagnir eru þó í húsin. Íbúarnir í gömlu borginni þurfa því að sækja sér vatn í brunna eða tjarnir djúpt niðri í jörðinni sem tengjast neðanjarðar-ræsunum.

Fimmtudagur 8. október:
Við fórum snemma á fætur. Í garðinum innan veggja hótelsins voru tveir suðuramerískir macaw páfagaukar, vængstýfðir og mjög gæfir. Við Helen hittum annan þeirra úti í garðinum þennan morgun. Páfagaukurinn sat þar á grein og var að narta í granatepli sem hann hélt í annarri klónni.

Eftir morgunverð ókum við niður í miðborg Yazd. Við byrjuðum á að heimsækja eldmusteri Zoroastriana sem var byggt 1934. Í Yazd er allstór hópur þessa trúflokks og halda þeir fast í þessa elstu eingyðistrú sem sögur fara af. Utan á eldmusterinu var einkennismerki Zoroastrian-trúarinnar, maður sem heldur á hring í vinstri hendi og lyftir hægri hendi í virðingarskyni við guð sinn, Ahura Mazda. Um mittið hefur þessi maður stóran hring sem á að tákna jörðina. Þá hefur hann tvo útbreidda vængi með fjaðraskúfum sem eiga að tákna a) góðar hugsanir, b) góð orð og: c) góð verk. Stélfjaðrirnar að neðan tákna: a) illar hugsanir, b) ill orð og c) ill verk. Inni í musterinu brann eldur á bak við glervegg. Áletrun á vegg í musterinu útskýrði að þessi eldur hefði brunnið samfleytt frá árinu 470 e. Krist, í ýmsum eldmusterum í Íran áður en þetta musteri var byggt.

Frá eldmusterinu gengum við um gömlu miðborgina í Yazd. Göturnar voru mjög þröngar og sérkennilegt var að sjá þar gamlar hurðir á húsum með tvenns konar dyrabjöllum. Önnur bjallan var fyrir konur og hin fyrir karla. Bjöllurnar gáfu mjög mismunandi tón svo að húsráðendur gátu heyrt af hvoru kyninu gesturinn var. Við fórum inn í bakarí í gömlu borginni og sáum þar bakara að störfum. Þeir slettu deigi á leirvegg í ofni. Eldurinn lék um vegginn hinu megin frá og brauðið bakaðist þannig á annarri hliðinni á skammri stundu. Síðan var brauðinu snúið við og von bráðar var það klárt handa viðskiptavinunum.

Í einni byggingu í Yazd sem við fórum inn í, var steinsmiður að höggva út mósaik-myndir. Var fróðlegt að sjá, hvernig hann notaði hamarinn til að höggva til mósaik-kubba eftir teikningu og síðan voru kubbarnir límdir á sléttan flöt. Í þessari byggingu klifruðum við upp á þak og sáum yfir gömlu borgina í Yazd. Þar sást vel arkitektúrinn á húsunum sem öll voru úr leir-múrsteini. Kæliturnar til að veita svalri golu niður í húsin í sumarhitanum, voru upp úr þaki margra húsa. Í miðborginni í Yazd fórum við inn í minjagripabúð og þar stutt frá hittum við hóp af glaðværum skólastúlkum sem gjarnan vildu fá mynd af sér með íslensku konunum í hópnum okkar.

Við skoðuðum þessu næst samkundumoskuna (masjed-e jameh) í miðborg Yazd en hún er frá 15 öld og með tveimur 48 m háum mínarettum. Í moskunni er m.a. fagurlega skreytt hvelfing. Í garði moskunnar er brunnur niður í vatnsræsakerfi borgarinnar. Pezhman sagði okkur að undir brunninum væru tvö vatnsræsakerfi. Það kerfi sem grynnra liggur er þurrt en það neðra mengað og er vatnið því ónothæft til drykkjar. Í garði moskunnar hitti ég nokkra Írani og talaði svolítið við þá á persnesku. Þeir spurðu mig m.a. hvers vegna ég hefði farið að læra persnesku. Ég sagðist hafa gert það af virðingu við Írani og Íran. Einn þessara manna faðmaði mig að sér í kveðjuskyni og kyssti mig á kinnarnar að hætti Múslima.

Utan við moskuna keyptum við nokkur póstkort en frímerki fengum við engin. Pezhman var sendur á pósthús í miðborg Yazd að kaupa frímerki, en kom aftur með þau skilaboð að þar fengjust engin frímerki. Það skildi ég ekki.

Við borðuðum hádegisverð á hóteli í miðborg Yazd sem heitir Silk Road Hotel. Marco Polo mun hafa komið til Yazd á 13. öld á leið sinni um silkiveginn frá Tyrklandi um Persíu til Kína. Pezhman sagði okkur þó að hinn hefðbundni silkivegur hefði legið austur í gegnum Íran töluvert langt norðan við Yazd. Eftir hádegishvíld á hótelinu fórum við að skoða vatnssafnið í Yazd. Þar sáum við hvernig vatn er leitt eftir neðanjarðar-ræsum langar leiðir undir eyðimörkinni í Íran frá vatnsbólum í hæðum og fjöllum. Neðanjarðar-ræsin eru handgrafin göng, etv. 1,5 m á hæð og 0,8 m á breidd. Svona vatnsræsi eða qanat-kerfi hafa Íranir notað í ein 2.000 ár. Úti á eyðimörkunum í Mið-Íran mátti víða sjá hvar þessi qanat-kerfi eru, því að uppgraftrarhaugar voru í beinni línu eftir eyðimörkinni með etv. 50-100 m millibili. Á vatnssafninu mátti sjá hvernig yfirborðsvatni er safnað í fjöllunum í uppistöðulón og vatnið síðan leitt úr lónunum eftir þessum neðanjarðarræsum til borga og bændabýla í eyðimörkinni.Ekkert mundi þýða að leiða vatnið eftir opnum skurðum í eyðimörkinni. Þá mundi vatnið strax gufa upp í hitanum. Jarðvegurinn undir eyðimörkinni er víða fremur laus í sér og því tiltölulega auðvelt að grafa göngin. Uppgreftrinum er síðan lyft upp úr göngunum í fötum með vindum sem eru knúnar með handafli. Okkur var sagt að vinnan við þessi ræsakerfi væri oft mjög hættuleg og menn færust oft við þessa iðju.

Eftir að hafa skoðað vatnssafnið fórum við í sætindaverslun, sem var ekki fyrst og fremst fyrir ferðafólk, heldur fyrir heimamenn. Þar þurfti fyrst að panta sætindin, síðan að greiða fyrir þau á öðrum stað og loks mátti sækja þau á þriðja staðinn. Þessi sætindi voru mjög ódýr en gómsæt. Frá sætindaversluninni fórum við niður í kjallara þar sem karlmenn sýndu fimleika á hringlaga sviði. Ungur piltur spilaði undir á hljóðfæri. Pezhman sagði að svona hefðu hermenn Írana þjálfað sig áður fyrr. Þessir karlmenn voru alklæddir, í ermastuttum bol og buxum, þannig að konur máttu vera í áhorfendahópnum. Um kvöldið borðuðum við í gömlu borginni í Yazd. Það bar þá til tíðinda að rafmagnið fór af. Langan tíma tók að finna einhver ljósfæri og ég sagði við Höskuld Jónsson sem sat við sama borð og ég, að nú hefði komið sér vel að vera með ennisljós í bakpokanum. Ekkert okkar Íslendinganna hafði þó verið svo forsjált að taka ennisljós með sér til Íran.

Föstudagur 9. október:
Við kvöddum Yazd að morgni og ókum áleiðis norðvestur til Esfahan. Fyrst ókum við eftir hraðbraut norðvestur til lítillar borgar, Meybod. Þótt þetta væri á frídegi Múslima, föstudeginum, var þarna mikil umferð vöruflutningabíla. Reynar mun þessi hraðbraut vera aðalvegurinn frá Indlandi og Pakistan til Tehran og Tyrklands og Evrópu. Í Meybod skoðuðum við Narein-kastalann sem er frá tíma Sassanid-ættarinnar (224-628 e. Krist). Þessi kastali er byggður úr leirmúrsteinum og er orðinn hrörlegur. Frá þaki kastalans var hins vegar hið besta útsýni yfir Meybod.

Í Meybod skoðuðum við caravanserai, sem er eins konar ferðamannahótel. Hótelið er hringlaga múrveggur utan um garð með vatnsbóli í miðjunni. Þetta vatnsból fær vatn frá qanat-kerfi staðarins. Inn í veggina allt í kring um vatnsbólið voru síðan herbergi þar sem kaupmenn og aðrir ferðalangar geta gist. Hvert herbergi var ca. 2,5 m x 3,5 m að gólffleti. Svona ferðamannahótel munu hafa verið víðs vegar um Íran áður fyrr. Gjarnan voru caravanserai í námunda við markaðinn í borgunum og síðan með etv. 30 km millibili á milli borga. Þannig mun hafa verið röð af caravanserai á Silkiveginum þvert yfir norðanvert Íran.

Frá Meybod ókum við norðvestur til borgarinnar Nain, sem stendur í eyðimörkinni austur af stórborginni Esfahan. Í Nain fórum við inn á heimili roskinna hjóna til að sjá vefnað og hnýtingu á persneskum teppum. Húsbóndinn sem gæti hafa verið 70-80 ára, var að vefa dúk eða vaðmál á vefstól. Þegar ég bauð honum góðan daginn á persnesku, lifnaði hann allur við og teygði sig upp frá vefstólnum sínum til að heilsa mér með handabandi. Frá vinnustofu húsbóndans var okkur fylgt inn í annað herbergi í húsinu þar sem húsmóðirin var að vefa gullfallegt Nain-teppi á lóðréttum vefstól. Okkur þótti frábært að sjá hvernig hún brá ullarbandinu utan um lóðréttu þræðina (warp) þannig að endarnir stóðu fram úr (upp úr) teppinu. Svo sló hún hnútana þétt niður á láréttu þræðina (weft) með sérstökum kambi.

Þessi gömlu hjón voru með teppi og mottur til sölu og nokkur okkar keyptu mottur af þeim. Teppagerð er mikilvægur atvinnuvegur í Íran. Meira en fimm milljónir Írana vinna í teppaiðnaðinum og teppi eru næstmikilvægasta útflutningsvara landsins, á eftir olíunni.

Eftir að hafa skoðað vefnað og teppagerð á heimili gömlu hjónanna í Nain, ókum við að moskunni í borginni og borðum þar hádegisverð utan dyra. Eftir það héldum við vestur til Esfahan og á leiðinni sagði JK okkur sögu Ísraelsríkis og harmsögu Palestínumanna sem því tengist. Í Esfahan héldum við rakleitt á Hotel Ali Qapu við breiðgötuna Chahar Bagh eða Garðana Fjóra. Esfahan þykir fegursta borg Írans og þar búa um 1,6 milljónir. Borgin liggur á þurru svæði í Mið-Íran, um 1.500 m y. sjó. Í gegnum borgina rennur Zayandeh fljót eða Lífgjafarfljót. Fljótið kemur vestan úr Zagros fjöllum vestan borgarinnar og hverfur síðan í eyðimörkina austan Esfahan. Reyndar var slík þurrkatíð þegar við vorum í Esfahan að árfarvegurinn í borginni var algjörlega vatnslaus.

Fyrsta kvöldið í Esfahan gengum við Helen ásamt Höskuldi og Guðlaugu og Tryggva Ásmundss. og Öglu niður á „Brú Hinna Þrjátíu og Þriggja Boga“ eða Pol-e Si-o-Se, rétt hjá hótelinu. Var einkar fallegt að sjá þessa 300 m löngu brú flóðlýsta í myrkrinu um kvöldið. Eins og áður sagði, var farvegur Lífgjafarfljótsins þó algjörlega þurr. Við gátum því ekki notið þess að sjá brúna speglast í vatnsfleti fljótsins.

Laugardagur 10. október:
Við vorum snemma á fótum og ókum niður í miðborg Esfahan. Við byrjuðum á að skoða „Höll Hinna Fjörutíu Súlna“ eða Chehel Sotun Palace. Reyndar eru súlurnar bara 20 en Pezhman sagði að „fjörutíu“ þýddi einfaldlega „margir“ í þessu samhengi. Höllin stendur í einstaklega fallegum garði. Beint fram undan höllinni var ílöng tjörn og mikið af blómum og trjám í kringum hana. Inni í höllinni var stór salur með fresco-myndum á veggjunum frá tíma Abbas konungs I og Abbas konungs II á 17. öld. Á þeim tíma var Esfahan höfuðborg Persaveldis. Á myndunum mátti sjá orrustur og einnig hirðlíf þar sem erlendir hefðarmenn komu í heimsókn til Persakonungs.

Frá Chehel Sotun Palace fórum við upp á Imam torgið sem er miðpunkturinn í Esfahan og afar fallegt torg. Þetta torg var gert á dögum Abbas konungs (Shah) I á 17. öld og er um 512 m x 163 m að flatarmáli. Sunnan við torgið er hin stórkostlega Imam moska. Vestan við mitt torgið er Ali Qapu höllin og andspænis henni, austan við mitt torgið er Sheikh Lotfollah moskan. Norðan við torgið er síðan aðalinngangurinn á Stóra Basarinn (Bazar-e Bozorg). Við skoðuðum fyrst Ali Qapu höllina, sem er 48 m há. Þar eru fallegar trésúlur frammi við torgið og ofan á þeim eru svalir. Af svölunum er mjög fögur sýn yfir Imam torgið. Við fórum eftir það upp mjóan og brattan hringstiga upp á efstu hæð hallarinnar. Þar uppi var allstórt herbergi og mun gestum hafa verið skemmt þar með tónlist hér áður fyrr. Veggir þessa herbergis voru úr timbri með útskornum götum til að bæta hljómburðinn.

Frá Ali Qapu höllinni fórum við að skoða Imam moskuna við suðurenda Imam torgsins. Sú moska var byggð á árunum 1611-29 á tíma Shah Abbas I og er afar íburðarmikil. Moskan þykir ein sú fegursta í heimi. Víst er að litirnir og skrautið á hinum ýmsu veggjum og í hinum ýmsu hvelfingum moskunnar eru stórfenglegri en orð fá lýst. Mitt undir einni hvelfingunni er blettur með marmaraflísum í gólfinu. Ef maður talar þar eða lætur skrjáfa í blaði, bergmálar hljóðið til manns hvað eftir annað. Þetta mun eiga að tákna að öll verk mannsins, góð eða slæm, koma til hans aftur, ekki einu sinni, heldur margoft.

Frá Imam moskunni fórum við í Sheikh Lotfollah moskuna austan við Imam torgið. Sú moska var byggð á árunum 1602-19 og átti frá upphafi að vera fyrir yfirstéttina. Nú er þessi moska einungis notuð til bænahalds fyrir þá sem styðja rekstur þessarar mosku með fjárframlögum. Moskan er afar skrautleg. Þegar við komum þarna síðdegis, skein sólin á framhlið moskunnar svo að litirnir í mósaik-skrautinu þar voru alveg stórkostlegir. Mest bar þar á bláum lit en einnig var gult, grænt og hvítt áberandi.

Eftir að hafa skoðan Sheikh Lotfollah moskuna fórum við inn á tehús á Stóra Basarnum. Þar fengu menn sér vatnspípu og þarna var glatt á hjalla. Um kvöldið borðuðum við á veitingahúsi við Imam torgið. Var einkar fagurt að sjá stóru moskurnar tvær við torgið flóðlýstar. Einnig var Ali Qapu höllin flóðlýst á tilkomumikinn hátt.

Sunnudagur 11. október:
Við byrjuðum daginn á að aka niður í miðborg Esfahan og ganga í gegnum hluta af Stóra Markaðnum til Safnaðarmoskunnar, Masjed-e Jameh, við norðurenda markaðarins. Þessi moska er gríðarstór, um 20.000 fermetrar eða tveir hektarar að gólffleti. Elsti hluti moskunnar er frá tíma Seljukanna á 11. öld e. Krist. Við gengum fyrst inn í elsta hluta moskunnar. Þar var lítið um íburð og ekkert marglitt mósaik á veggjunum. Þessi elsti hluti moskunnar varð fyrir skemmdum í loftárásum Íraka á Esfahan í stríðinu 1980-88. Nú var þó búið að gera við þær skemmdir. Meginhvelfing moskunnar skemmdist ekki í loftárásum Íraka. Við fórum víða um Safnaðaramoskuna, m.a. inn í Vetrarhöllina (Bayt al-Sheta) sem var byggð um 1448. Þar var skuggsýnt en fagurt. Víða mátti sjá byggingarstíl frá mismunandi tímum í Safnaðarmoskunni.

Eftir að hafa skoðað Safnaðarmoskuna, ókum við yfir í syðri hluta Esfahan, sunnan Lífgjafarfljótsins. Þar fórum við inn í hverfi Armena, Jolfa. Forfeður Armenanna sem hér búa voru fluttir til Esfahan frá persnesku Armeníu upp úr 1600. Shah Abbas I stóð fyrir þessu. Armenunum var ætlað að starfa sem kaupmenn, listamenn og nýsköpunarfólk. Nú búa um 7000 kristnir Armenar í Jolfa og þar eru 13 armenskar kirkjur, en þær eru ekki allar starfræktar.

Í Jolfa byrjuðum við á að skoða Vank dómkirkjuna. Þar mátti ekki taka myndir innan dyra. Kirkjan var skreytt í hólf og gólf með myndum úr Biblíunni og var afar ólík moskunum í Íran. Þarna var spiluð kirkjutónlist sem minnti mig á rússneska tónlist, en sá sem stýrði tónlistinni, sagði mér að hún væri vissulega armensk. Frá Vank dómkirkjunni fórum við inn á armenskt safn þar rétt hjá. Þar mátti sjá ýmsa sögulega muni, s.s armensk vegabréf frá því stutta tímabili um 1920 þegar Armenía var sjálfstætt ríki. Mér fannst athyglisvert að yfirskriftin á vegabréfinu var á frönsku, fremur en á ensku. Einnig voru þarna myndir sem tengdust fjöldamorðum Tyrkja á Armenum um 1915. Þá er talið að Tyrkir hafi myrt um 1,5 milljónir Armena.

Við borðuðum hádegismat í armenska hverfinu í Esfahan. Þar fengum við að mínu mati einhverja bestu máltíðina í allri Íranferðinni. Meðal annars fengum við hinn þjóðlega rétt dizi sem var borinn fram í uppháum leirpotti. Þurfti að margstappa innihald pottsins niður með þar til gerðum hnalli áður en hægt var að njóta innihaldsins.

Að hádegisverði loknum fórum við að skoða eina af gömlu brúnum yfir Lífgjafarfljótið. Sú brú kallast Khaju-brúin og er 110 m löng. Brúin var byggð um 1650 og þykir mjög fögur. Hún er nú lokuð fyrir bílaumferð en er paradís gangandi fólks. Þessi brú, eins og fleiri brýr yfir Lífgjafarfljótið í Esfahan, er uppistöðustífla að hluta til. Nú var hins vegar ekkert vatn í árfarveginum.

Frá Khaju-brúnni ókum við að „Skjálfandi Mínarettunni“ í Vestur-Esfahan. Þar er moska með tveimur fremur lágum mínarettum. Þessi moska er frá 17. öld, a.m.k. eru turnarnir það. Á um það bil einnar klst. fresti fer starfsmaður upp í aðra mínarettuna og hristir hana svo að hún fer að sveiflast. Jafnframt sveiflast þá hin mínarettan líka. Við horfðum á eina þessa sveiflu-lotu. Mér fannst þetta reyndar ekki neitt stórkostlegt. Þetta sagði mér, öðru fremur, að mínaretturnar væru úr sveigjanlegu efni sem auðvelt er að sveifla til.

Frá „Skjálfandi Mínarettunni“ ókum við niður í miðborg Esfahan að versla. Við Helen keyptum hálsfesti með grænum malachite-steini handa henni. Einnig skoðuðum við persnesk teppi og mottur. Í verslun sem kallast Nomad Carpet Shop gat ég fengið fallega Esfahan-mottu með silki-ívafi fyrir USD 380. Verslunarmaðurinn neitaði hins vegar alveg að slá neitt af verðinu og virtist mér það óeðlilegur verslunarmáti á basarnum í Esfahan. Ég keypti því enga mottu þarna.

Mánudagur 12. október:
Nú var „frídagur“ og klukkan 10 ókum við niður í miðborg að versla. Við Helen sóttum hálsfestina sem nú var tilbúin. Við keyptum einnig handtösku undir pappíra og fleira handa Helen. Svo fórum við að skoða persnesk teppi og mottur. Rétt fyrir hádegið keypti ég Esfahan-mottu með silki-ívafi. Mottan var þétt-ofin, hér um bil 90 hnútar á fersentimeter. Hún var ekki stór, 68 cm x 102 cm. Teppasalinn vildi fá USD 380 en ég prúttaði verðinu niður í USD 340. Glöggt kom fram hjá einum þremur teppasölum, sem við heimsóttum á basarnum í Esfahan, að þar sem við Helen komum án leiðsögumanns, þá buðust okkur motturnar á lægra verði en ella. Sölumennirnir sögðu allir að þegar leiðsögumaður kæmi með hóp inn í verslanirnar, þá fengi leiðsögumaðurinn ætíð þóknun fyrir það – sem þá bætist ofan á verð þeirra hluta sem keyptir eru.

Um hádegið fórum við öll í hádegisverð rétt hjá Imam torginu í miðborg Esfahan. Eftir það héldum við Helen áfram búðarápi en fórum svo með leigubíl upp á hótelið. Fyrir bílferðina borguðum við USD 3 eða um 375 krónur íslenskar. Ekki hefðum við ferðast langt í leigubíl í Reykjavík fyrir það verð. Eftir svolitla hvíld á hótelinu gengum við niður að Pol-e Si-o-Se og fengum okkur te á tehúsinu undir norðurenda brúarinnar. Eftir það fylgdum við breiðgötunni Chahar Bagh suður á bóginn frá Lífgjafarfljótinu að verslunarmiðstöð, um einum kílómeter sunnan árinnar. Við tókum eftir því að í þessari verslunarmiðstöð voru engir erlendir ferðamenn sjáanlegir en við Imam torgið var þó strjálingur af þeim. Erindi okkar í þessa verslunarmiðstöð var að leita að flautu handa Helen. Helen hafði séð íranska flautu á veitingastað í Shiraz og langaði að skoða gripinn. Þarna reyndust vera ekki færri en þrjár verslanir með gott úrval hljóðfæra. Írönsku flauturnar fengust í þessum verslunum en það reyndist Helen þrautin þyngri að ná skikkanlegu hljóði úr þeim. Einn verslunarmaðurinn bauðst til að selja okkur kennslubók í flautuleik en bókin var eingöngu á persnesku og því okkur lítils nýt. Við hættum því við flautukaupin og gengum til baka eftir Chahar Bagh á Hotel Ali Qapu. Á leiðinni dáðist ég að því hve Íranir þeir sem við sáum þarna voru vel klæddir og virtust vel efnum búnir. Verslanir í Esfahan eru einnig fullar af glæsilegum varningi og enginn skortur á neinu, eftir því sem ég gat best séð. Um kvöldið borðuðum við með hópnum okkar á veitingastað rétt hjá Hotel Ali Qapu.

Þriðjudagur 13. október:
Við vöknuðum snemma og ókum af stað frá Esfahan áleiðis norður til Tehran. Á leiðinni ókum við framhjá hreinsunarstöð fyrir uranium, rétt norðan við borgina Natanz. Svæðið var víggirt og voru varðturnar með stuttu millibili á girðingunni. Þá voru þarna loftvarnarbyssur og hermenn á hverju strái. Var líkast því að Íranir byggjust við loftárásum Ísraelshers á þennan stað á hverri stundu. Pezhman leiðsögumaður bannaði okkur alveg að taka myndir þarna, þó ekki væri nema út um gluggann á rútunni. Við ókum síðan gegnum útjaðar borgarinnar Qom sem er önnur helgasta borgin í Íran og miðstöð klerkavaldsins. Þar sáum við álengdar gyllt hvolfþakið á Hazrat-e Masumeh, þar sem Fatemah, systir Imam Reza, er grafin.

Stutt norðan við Qom sáum við uppþornað stöðuvatn sem jafnframt er saltnáma. Í þetta vatn munu renna ár úr suðurhlíðum Alborz-fjalla, norðan Tehran, en nú var þarna hvergi vatnsdropa að sjá. Hins vegar voru þarna stórvirkar vélar, að því er virtist til að moka saltinu upp. Þetta saltvatn er í vesturjaðri Dasht-e Kavir sem er stærsta eyðimörkin í Íran. Skammt norðan saltvatnsins ókum við framhjá Imam Khomeini alþjóðaflugvellinum og þá fór að styttast að suðvesturmörkum Tehran. Þegar til Tehran kom, ókum við beint á Þjóðminjasafnið. Pezhman leiddi okkur þar um þann hluta safnsins sem er frá því fyrir Islam, þ.e. fyrir 640 e. Krist. Var þarna allmargt af fallegum munum úr leir og ýmsum málmum, ekki síst frá Susa og Persepolis. Þó vantaði þarna dýrgripi eins og afsteypuna af lögbók Hammurabis. Okkur var sagt að sú afsteypa væri í útláni í British Museum í London. Frummyndin er hins vegar í Louvre safninu í París.

Við vorum á Þjóðminjasafninu í rúma klukkustund. Þaðan ókum við upp á Hotel Laleh og gistum þar um nóttina. Um kvöldið var kveðjukvöldverður á veitingastað á efstu hæð hótelsins. Þar þakkaði JK þeim Pezhman, Mohammed bílstjóra og aðstoðarmanni þeirra fyrir ánægjulega ferð. Höskuldur Jónsson o.fl. þökkuðu JK fyrir hennar hlut í að gera ferðina einstaklega góða og eftirminnilega.

Miðvikudagur 14. október:
Við vöknuðum kl. 03.30 og fórum af stað frá hótelinu einni klst. síðar. Við ókum rakleitt út á Imam Khomeini alþjóðaflugvöllinn og fórum í loftið á tilsettum tíma, rétt um kl. 08. Við flugum til London með breskri flugvél, frá British Midland. Íslensku konurnar voru fljótar að rífa af sér slæðurnar þegar vélin var komin af stað frá flugstöðinni. Flugið til London tók tæpar sex klst. og var flogið norðvestur yfir Tyrkland, Svartahaf, Búlgaríu, Rúmeníu og Mið-Evrópu til London. Eftir rúmlega einnar klst. flug frá Tehran blasti allt í einu við mikill snævi þakinn, keilulaga tindur rétt norðaustan flugleiðarinnar. Við Höskuldur Jónsson giskuðum á að þetta væri Ararat-fjall, þar sem Örkin hans Nóa á að hafa strandað eftir syndaflóðið, sem sagt er frá í Gamla Testamentinu. Ararat-fjall er austast í Tyrklandi og er tindur þess 5.165 m y. sjó. Á leiðinni til London kom í ljós að allmörg okkar Íslendinganna voru orðin leið á tveggja vikna áfengisbanni því sem við gengumst sjálfkrafa undir í Íran. Kom sér þá vel að nægar birgðir guðaveiga virtust vera um borð í bresku flugvélinni.

Við biðum á Heathrow flugvelli í London frá hádegi og fram á kvöld. Við fórum loks í loftið með Flugleiðavél til Íslands klukkan 21.30 að staðartíma. Suðaustan við Ísland var geinilega lokið góðviðri því sem við höfðum baðað okkur í þessar tvær vikur í fríinu. Þar hristist vélin verulega um tíma og við lentum í suðvestan roki og rigningu í Keflavík undir miðnættið. Við Helen gistum í Reykjavík og flugum svo til Akureyrar að morgni 15. október, í suðvestan dræsingi. Var þá aftur veruleg ókyrrð í lofti þegar við nálguðumst Akureyrarflugvöll. Við vorum komin heim til okkar um kl. 11.30 eftir mjög svo ánægjulega ferð.

Ingvar Teitsson